Funduðu um hagræn áhrif menntunar og jafnréttis

Menntun og jafnréttismál voru meginefni fundar Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og Ángel Gurría, framkvæmdastjóra Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) á dögunum. „Við áttum afar uppbyggilegan fund,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir að honum loknum, „bakgrunnur okkar beggja er á sviði hagfræðinnar og það litar okkar samtal. Við fræddumst bæði heilmikið og ég hlakka til frekara samstarfs.

Á fundinum ræddu þau m.a. nýútkomna skýrslu OECD, sem unnin var að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar, en þar kemur fram að verg landsframleiðslu á hvern mann í Danmörku, Íslandi, Noregi og Svíþjóð hefur hækkað um 10-20% síðustu 40-50 árin vegna aukinnar atvinnuþátttöku kvenna. Skýringa þess sé helst að leita í dagvistunarmöguleikum barna, launuðu fæðingarorlofi fyrir báða foreldra, sveigjanlegum vinnutíma og fjölgun hlutastarfa sem leitt hafa til þess að næstum jafnmargar konur og karlar á Norðurlöndum vinna úti. Í þessum löndum er kynjabilið minnst innan OECD ríkjanna. Niðurstaða skýrslunnar er að Norðurlönd væru tuttugu árum skemur á veg komin efnahagslega ef umbætur í jafnréttismálum hefðu ekki stuðlað að aukinni atvinnuþátttöku kvenna.

Þetta eru tölur sem ekki er mikið er rætt um en þær tala sínu máli. Þau framfaraskref sem stigin hafa verið í jafnréttisátt á Norðurlöndunum hafa skilað okkur miklum árangri í efnahagslegu tilliti. Þar skiptir menntun máli – efling leikskólastigsins hefur aukið möguleika fólks á vinnumarkaði og menntunarstig kvenna hefur fjölgað tækifærum þeirra til fjölbreyttari starfa,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir og bætti við „aðgengi að menntun eykur lífsgæði og hagvöxt, það ætti því ávallt að vera keppikefli að menntakerfi okkar geti mætt örum samfélagsbreytingum.

Gurría lýsti yfir miklum áhuga sínum á niðurstöðum skýrslunnar og árangri Norðurlandanna á þessu sviði. Hann sagði ljóst að ríki sem fjárfesti í menntainnviðum, svo sem þau sem niðurgreiði fyrsta skólastigið, komi betur út í hagrænu tilliti. Hann ræddi einnig fordæmi Eistlands sem forgangsraðað hefur markvisst í þágu menntunar á undanförnum árum. Eistland er meðal þeirra ríkja innan OECD sem hefur einna lægstar þjóðartekjur en nær miklum árangri þegar kemur að menntun – nemendur þar eru yfir meðallagi í PISA könnunum, brottfallshlutfall lágt og aðgengi að grunnmenntun gott.

Í samanburði skýrslu OECD kemur fram að atvinnuþátttaka kvenna á Íslandi sé með því hæsta sem þekkist. „Það er ánægjulegt að fá svona greinargóðar upplýsingar um mikilvægi framlags íslenskra kvenna í þróun lífskjara hér á landi og ekki síður forvitnilegt að sjá þær í samanburði við stöðu annarra landa,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila