Fjölga hjúkrunarrýmum í Hafnarfirði um 33

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur veitt Hafnarfjarðarbæ heimild sem gerir kleift að fjölga hjúkrunarrýmum í bæjarfélaginu um 33 innan tveggja ára. Hjúkrunarrými í Hafnarfirði verða þar með rúmlega 90. Ráðherra kynnti Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra ákvörðun sína í Hafnarfirði í vikunni. Ákvörðunin er liður í stórátaki stjórnvalda um uppbyggingu hjúkrunarrýma sem heilbrigðisráðherra kynnti fyrr á þessu ári með framkvæmdaáætlun til ársins 2023.
Áætlað er að nýtt 60 rýma hjúkrunarheimili sem verið er að byggja við Sólvang í Hafnarfirði verði tekið í notkun um næstu áramót. Forsvarsmenn Hafnarfjarðarbæjar leituðu til velferðarráðuneytisins fyrr á þessu ári og lýstu áhuga á því að nýta húsnæði gamla hjúkrunarheimilisins undir fjölgun hjúkrunarrýma.  Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sem fyrr segir fallist á tillögu Hafnfirðinga og tryggt aukið fjármagn til rekstursins sem nemur fjölguninni. Hún segist afar ánægð með frumkvæði Hafnfirðinga í þessu máli: „Þeir komu til mín með vel mótaða hugmynd sem unnt er að framkvæma hratt, hún er hagkvæm, hún er mikilvæg og þörf og hún fellur vel að áætlun stjórnvalda um átak í þessum efnum“ segir ráðherra.

Segir uppbygginguna hafa margvísleg jákvæð áhrif

Svandís segir þá sókn sem hafin er til uppbyggingar hjúkrunarrýma á landsvísu hafa í för með sér margvísleg áhrif til góðs. „Eins og ég sagði þegar ég kynnti áætlun um fjölgun hjúkrunarrýma á góðum fundi um öldrunarþjónustuna sem haldinn var í Höfða síðastliðið vor, þá hefur þetta í fyrsta lagi áhrif á lífsgæði aldraðra sem eru á biðlistum eftir slíkum rýmum, oft við erfiðar og ófullnægjandi aðstæður. Þetta styrkir stöðu Landspítalans til að sinna sérhæfðri heilbrigðisþjónustu þar sem útskriftir sjúklinga ganga greiðar fyrir sig og aukið svigrúm skapast hjá heilsugæslu og sveitarfélögum til að sinna betur þjónustu við aldraða sem sannarlega geta verið heima með góðum stuðningi“ segir Svandís.
Þessi ákvörðun er gríðarlega mikilvæg og jákvæð fyrir okkur hér í Hafnarfirði. Hér er brýnt hagsmunamál, sem við höfum talað fyrir um nokkurt skeið, að verða að veruleika sem og sú framtíðarsýn okkar að Sólvangur verði öflug öldrunarmiðstöð. Við erum þakklát fyrir þessa heimild ráðuneytisins og munum halda áfram að efla og styrkja þjónustu við aldraða hér í bæ“ sagði Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri í Hafnarfirði

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila