Aðgerðaráætlun gegn brotthvarfi úr námi samþykkt

Á fundi Velferðarvaktarinnar í vikunni voru samþykktar 14 tillögur til stjórnvalda um aðgerðir til að auka hlutfall nemenda sem ljúka framhaldsskólanámi og hefur bréf með tillögunum verið sent mennta- og menningarmálaráðherra. Nýlegar rannsóknir sýna að hlutfall fullorðinna án framhaldsskólaprófs á Íslandi er hið hæsta meðal Norðurlandanna og það fimmta hæsta meðal OECD-ríkja eða um 30%. Brotthvarf úr framhaldsskólum á Íslandi er um 19%, en í Danmörku 8%, Svíþjóð 7%, Finnlandi 9% og Noregi 11%. Meðaltal brotthvarfs í Evrópu er 11%.  Fram kemur í tilkynningu að það sé mat Velferðarvaktarinnar að mikilvægt sé að sem flest ungmenni geti stundað nám við hæfi og þannig stuðlað að farsælu lífi til framtíðar, hátt hlutfall brotthvarfs nemenda úr framhaldsskólum á Íslandi sé því mikið áhyggjuefni. Í tilkynningunni segir einnig að tillögurnar verði sendar nýjum mennta- og menningarmálaráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, heilbrigðisráðherra og  alþingismönnum auk framkvæmdastjóra sveitarfélaga og nemendaráðum.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila