Áramótaspá: Annað og stærra hrun framundan

Sirrý spákona.

Annað hrun er framundan á árinu 2018, bankar munu falla, stórtap verða vegna olíuleitar og tekjur af komu ferðamanna munu ekki standa undir væntingum, og hræringar verða á stjórnmálasviðinu. Þetta var meðal þess sem fram kom í áramótaspá Sirrýjar spákonu en hún var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í dag. Í þættinum fór Sirrý yfir þá helstu atburði sem hún sér fyrir sér að muni gerast á árinu 2018.

Alþingi, forsetaembættið og sveitarstjórnarmál: Hrun og ný ríkisstjórn

Hrun mun verða á árinu og segir Sirrý að Arion banki og Íslandsbanki muni falla, fall þeirra tengist erlendum viðskiptum. Sirrý segir að því ætti fólk að fara varlega í fjárfestingar en hún segir atburðarrásina hafa hafist þegar á síðastliðnu ári og muni koma fyrir sjónir almennings á tímabilinu maí-júní með fyrrgreindum hætti. Þá verður kosið á árinu og munu Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn leiða næstu ríkisstjórn. Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson munu verða í framvarðasveit nýju ríkisstjórnarinnar. Breytingar munu þó verða á forystu Sjálfstæðisflokksins. Aðrir flokkar munu eiga erfitt uppdráttar á stjórnmálasviðinu og líklegt að Björt framtíð, Viðreisn og Flokkur fólksins þurrkist út. Lilja Alfreðsdóttir stendur vel innan Framsóknarflokksins og ekki ólíklegt að hún verði að lokum formaður flokksins. Hneykslismál mun koma upp á Bessastöðum og vekja mikla athygli.
Í borgarstjórnarkosningunum mun Sjálfstæðisflokkurinn vinna stóran sigur og mun næsti borgarstjóri verða ungur maður úr Sjálfstæðisflokknum, en Miðflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn munu mynda nýjan borgarmeirihluta. Aðrir flokkar munu eiga afar erfitt uppdráttar á sveitastjórnarstiginu, og borgarlínudraumar núverandi meirihluta verða að engu. Breytingar verða einnig í sveitar og bæjarstjórnum nágrannasveitarfélaga, flestar þeirra til góðs. Þær breytingar sem verða eru til komnar vegna ákalls almennings um alvöru breytingar.

Verkalýðsmál og atvinnulíf: Gjaldþrot og verkföll áberandi

Mikið tap verður vegna olíuleitarinnar á Drekasvæðinu og þá munu verktakafyrirtæki einnig eiga í miklum erfiðleikum. Túrisminn ekki svipur hjá sjón þar sem bæði færri ferðamenn koma til landsins og þá eyða þeir langt um minna fé hér á landi en áður. Fyrirtæki verða sett í þrot af pólitískum ástæðum, auk þess sem verkföll munu setja strik í reikninginn. Stærri fyrirtæki verða þau fyrirtæki sem finna hvað mest fyrir erfiðleikunum sem munu steðja að atvinnulífinu.

Lögreglan kemur upp um stærsta fíkniefnamál í sögu þjóðarinnar

Ákveðin upplausn verður innan lögreglunnar en gerðar verða mannabreytingar sem munu reynast vel og sátt mun skapast um lögregluna. Þá mun koma upp eitt stærsta fíkniefnamál í sögu þjóðarinnar og reynist málið tengjast erlendri glæpastarfsemi

Fjölmiðar og afþreying: Sameiningar fjölmiðla og sigrar á HM

Sirrý segir að hún sjái einhverjar sameiningar á fjölmiðlamarkaði og að unnið verði að því að efla sjálfstæði fjölmiðla. Þá munu íslendingar njóta mikillar velgengni í kvikmyndaiðnaðinum á árinu, en ekki sé hægt að segja það sama um gengi framlags Íslands í Eurovision. Íslenska landsliðinu mun hins vegar ganga vel á HM í Rússlandi þar sem þeir munu vinna sinn fyrsta leik.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila