Áramótaspá Láru 2018: Ríkisstjórnin springur og kosið í vor

Lára Ólafsdóttir sjáandi og miðill.

Árið 2018 verður á margan hátt jákvætt fyrir samfélagið og ástæða til tilhlökkunar, enda er það heppni sem mun einkenna árið 2018, þrátt fyrir ríkisstjórnarslit og hneykslismál sem upp munu koma á árinu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í áramótaspá Láru Ólafsdóttur sjáanda og miðils en hún var viðmælandi Arnþrúðar Karlsdóttur í hinum árlega áramótaspáþætti. Lára fór þar yfir þá helstu atburði sem hún sér fyrir sér gerast á árinu og er óhætt að segja að árið verði mjög viðburðarríkt.

 

 

Náttúruhamfarir: Eldgos á stað sem síst var von á gosi

Lára segir að draga fari til tíðinda í eldstöðvum landsins og bendir á að bæða Hekla og Katla séu að gera sig reiðubúnar fyrir gos, auk þess sem gjósa kunni á stað þar sem ekki var talin hætta á gosi ” ég sé eyju fyrir mér í þessu sambandi, og þetta er að mér finnst vera á Suðurlandinu, ég fæ hér upp töluna 27 og mánuðinn september“,segir Lára.

Dóms- og lögreglumál: Komið í veg fyrir hryðjuverk í Akureyrarkirkju og nýr lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu

Börn munu finna pakka, sem reynist vera sprengja við Akureyrarkirkju. Tveir íslendingar og þrír erlendir aðilar tengjast málinu og höfðu lagt á ráðin um hryðjuverk “og það tekst að koma í veg fyrir að kirkjan verði sprengd, og það kemur í ljós að þetta var skipulagt“,segir Lára.

Lára segir hneykslismál koma upp hjá lögreglunni á árinu og í ljós komi að aðilar innan hennar hafi með markvissum hætti falsað skjöl í þeim tilgangi að koma rangri sök á fólk, og að í kjölfarið muni fara fram tiltekt í lögreglunni “það kemur nýr lögreglustjóri, hávaxinn karlmaður utan af landi með mikla þekkingu, sérstaklega á fíkniefnamálum og almannavörnum, það verður tekið til innan deilda og þá sérstaklega á ákærusviðinu“,segir Lára.

Þá segir Lára um deilur um ráðningar í stöðu dómara að Sigríður Andersen sigri þær deilur og fái til liðs við sig tvo erlenda aðila sem munu aðstoða við að finna leiðir og veita leiðbeiningar um hvernig sé best að standa að skipun dómara.

Alþingi og Forsetaembættið: Framhjáhald á Bessastöðum og ný ríkisstjórn í kjölfar hneykslismáls

Dularfull gögn finnast sem snúa að fjármálum landsins og flækjast Steingrímur Joð forseti Alþingis og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata inn í málið. Málið verður ríkisstjórninni erfitt og springur hún á endanum vegna málsins. Lára segist sjá konu í lykilhlutverki atburðarrásarinnar þegar kemur að slitum á ríkisstjórnarsamstarfinu. Kosið verður í júní í kjölfar stjórnarslita en eftir þær munu eldri og reyndari menn taka við stjórnartaumum landsins, Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Flokkur fólksins setjast í ríkisstjórn undir handleiðslu Bjarna Benediktssonar.

Þá munu tveir stjórnmálaflokkar njóta góðs gengis á árinu, Inga Sæland verður á góðri siglingu á árinu og Miðflokkurinn vinnur stóra sigra í kosningum.

Svandís Svavarsdóttir mun verða áberandi á stjórnmálasviðinu og fá til liðs við sig aðila sem munu beina henni á beinu brautina í heilbrigðismálunum, og taka við stjórn málaflokksins. Stórátak fer fram á sviði geðheilbrigðismála og í málefnum fatlaðra.

Katrín Jakobsdóttir mun eiga nokkuð erfitt uppdráttar í stjórnmálunum, virðist ekki ráða við að stjórna og verður að mestu á hliðarlínunni, en mun þó vekja athygli á árinu með yfirlýsingu sem þjóðin mun taka andköf yfir.

Af forsetasetrinu á Bessatöðum er það að frétta að hneykslismál kemur upp sem varðar framhjáhald.

Borgarmálin: Kona í stól borgarstjóra

Konur verða nokkuð áberandi á sviði borgarmála og mun kona leiða lista Sjálfstæðisflokksins í borginni. Tveir nýjir flokkar munu koma fram í aðdraganda kosninga til borgarstjórnar, annar þeirra mun vinna stórsigur í kosningunum. Að kosningum loknum mun kona að endingu taka við embætti borgarstjóra. Sú kona sem mun verða borgarstjóri kemur mjög óvænt inn í kosningabaráttuna of fæstir reikna með því að hún verði borgarstjóri. Dagur hverfur úr stól borgarstjóra, Samfylkingin heldur sjó en með naumindum þó.

Utanríkismál: Norski herinn til verndar Íslandi vegna hótana, Donald Trump til Íslands

Sú staða kemur upp í heimsmálunum að viðvera kínverska hersins og bandaríkjahers verður nauðsynleg á Íslandi og mun Donald Trump forseti Bandaríkjanna stíga fæti á íslenska grund í þeim tilgangi að fylgjast með störfum bandaríkjahers og stýra nauðsynlegum aðgerðum. Donald Trump mun sitja áfram sem fastast í embætti og heldur hann út kjörtímabilið.

Norski herinn verður kallaður til verndar Íslandi vegna alvarlegra hótanna af hálfu annars ríkis vegna harðrar milliríkjadeilu, Lára segir að um hvað deilan snúist muni koma í ljós innan tíðar.

Banka og fjármál: Gjaldeyrishöft á ný

Landsbankinn verður eini bankinn sem ekki verður seldur og hinir sem seldir verða munu verða seldir erlendum bönkum sem séu vinveittir þjóðinni, en ekki íslenskum einstaklingum eins og búist er við núna. Þá kemur upp sú staða í fjármálum landsins að nauðsynlegt þyki að taka upp gjaldeyrishöft að nýju.

Verkalýðsmálin: Verkföll hafa mikil áhrif á samfélagið og mjólk flutt inn til landsins

Verkföll verða áberandi á árinu og munu hafa víðtæk áhrif á samgöngur, matvælaiðnað og ferðaþjónustu. Það þrengist mjög að bændum vegna verkfalla og verður árið kúabændum sérlega erfitt, en gripið verður til þess ráðs að flytja inn mjólk erlendis frá.

Íþróttir og afþreyingariðnaður: Stórmynd í bígerð, vonbrigði á HM og sigur í Eurovision

Það er skammt milli hláturs og gráturs þegar kemur að íþróttum og afþreyingu því samkvæmt spá Láru mun
Íslendingum ganga vel á EM í handbolta, en ekki mun ganga eins vel á HM í knattspyrnu þar sem íslendingar munu tapa sínum fyrsta leik á móti Argentínu. Leikmenn munu þó mæta tvíefldir á næsta leik og gera sitt besta. Kvikmyndagerðarfólk mun gera það gott á árinu og stórmynd verða framleidd hér á landi þar sem mjög margir íslenskir leikarar munu taka þátt.

Þá munu Íslendingar samkvæmt spá Láru eignast sinn fyrsta sigurvegara í Eurovision á þessu ári þegar ungur óþekktur karlmaður stígur á svið og heillar Evrópu með atriði sínu. Hlusta má á áramótaspá Láru Ólafsdóttur í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila