Áramótaspá Sirrýjar: Agnes biskup flækt í hneykslismál á árinu

Sirrý spákona.

Á dögunum var sendur út fyrsti hluti áramótaspár Útvarps Sögu en undanfarin 16 ár hefur Útvarp Saga fengið spákonur um áramót til þess að skyggnast inn í komandi ár. Í dag var Sirrý spákona viðmælandi Arnþrúðar Karlsdóttur þar sem Sirrý greindi frá nýrri sýn sem hún fékk inn í málefni kirkjunnar og tengist hneykslismáli sem verður biskupi afar erfitt. Þá sýn Sirrýjar má lesa um hér að neðan ásamt þeim atriðum sem fram kom í spá hennar á dögunum.

Verkalýðsmálin: Verkföll og gul vesti

Sirrý segir að byrjun ársins muni einkennast af verkföllum sem muni standa lengi yfir, þá muni almenningur safnast saman til að mótmæla ástandinu í samfélaginu og að í mótmælunum muni gul vesti koma við sögu enda hafi stjórnvöld hunsað vilja almennings. Þá kom fram í spá Sirrýjar að húsnæðismálin verði áfram í ólestri og að leiguverð haldi áfram að hækka.

Stjórnmálin: Staða ríkisstjórnarinnar veik og hugsanlegt að Katrín segi skilið við stjórnmálin

Þegar kemur að stjórnmálunum verður mikið að gerast í pólitíkinni eins og endra nær en Sirrý segir ríkisstjórnina standa veikum fótum og ekki þurfi mikið út af að bregða til þess að hún springi, sem Sirrý segir að talsverðar líkur séu á. Katrín verður afar upptekin af loftslagsmálunum og slitni upp úr stjórnarsamstarfinu muni hún segja skilið við stjórnmálin. Þá sér Sirrý nýja stjórnmálaflokka koma fram á sjónarsviðið á komandi ári.
Viðreisn mun ekki eiga sjö dagana sæla á árinu og mun ekki ná inn á þing ef kosið verður á árinu. Píratar munu halda sinni stöðu og lítið breytast hjá þeim. Þá munu þau tíðindi gerast að Sósíalistaflokkurinn kemst inn á þing.

Lilja í stól seðlabankastjóra

Lilja Alfreðsdóttir mun söðla um á árinu samkvæmt spánni og fara úr stjórnmálunum og yfir í Seðlabankann þar sem hún verður seðlabankastjóri og Sigurður Ingi Jóhannsson mun láta af embætti formanns Framsóknarflokksins.
Staða Flokks fólksins verður veikari á árinu en áður og mun flokkurinn þurfa að víkka út sjóndeildarhring sinn í stefnumálum til þess að ná vopnum sínum á ný.

Klaustursmálið tekur nýja stefnu

Óvænt tíðindi munu verða í klaustursmálinu og eftir rannsókn kemur í ljós að tveir símar voru notaðir við upptökuna frægu. Eftir að málið hefur verið rannsakað mun Miðflokkurinn koma betur út en forsvarsmenn hans þorðu að vona og mun flokkurinn lifa áfram. Gunnar Bragi mun hins vegar ekki eiga afturkvæmt á stjórnmálasviðinu.

Málefni kirkjunnar

Innan kirkjunnar kemur upp hneykslismál á árinu þegar Agnes Sigurðardóttir biskup flækist í hneyksli sem tengist fjármálum, í ljós kemur að Agnes er ekki í embættinu af hugsjón, heldur græðgi sem mun leiða til þess að henni verða settir afarkostir, að segja af sér eða að henni verði komið frá. Í kjölfarið tekur karlmaður við embættinu.

Málefni flóttafólks

Koma flóttamanna og hælisleitenda mun stóraukast á árinu í kjölfar þess að Ísland skrifaði undir Marrakesh samning Sameinuðu þjóðanna.

Sakamál og glæpir

Glæpum mun fara mjög fjölgandi á komandi ári og verða þar erlend glæpagengi áberandi, auk þess sem meiri harka og vopnaburður glæpamanna færist í vöxt. Lögreglan mun illa ráða við ástandið þar sem hún er fáliðuð eins og undanfarin ár. Tvö morð verða framin, eitt þeirra á Suðurnesjum en hitt á höfuðborgarsvæðinu.

Náttúruhamfarir og veðurfar

Í spá sinni segist Sirrý sjá snjóflóð á skíðasvæði þar sem einhver slys verði á fólki. Sirrý segir að hún sjái einhverjar jarðhræringar á árinu en þó ekkert eldgos. Veðurfarið á komandi sumri mun einkennast af rigningu og vætutíð.

Ferðaþjónusta

Samþjöppun verður í ferðaþjónustu á árinu og segir Sirrý að hún sjái nokkur stærri ferðaþjónustufyrirtæki sameinast en önnur minni fyrirtæki leggja upp laupanna.

Utanríkismál

Donald Trump mun vinna að góðum hlutum á árinu en andstæðingar hans munu gera hvað þeir geta til þess að snúa málum honum í óhag. Emmanuel Macron mun láta af embætti forseta Frakklands að lokum eftir mótmæli gulu vestanna. Í Þýskalandi mun verða stefnubreyting í málefnum flóttafólks og fjölda manna verða vísað úr landi í kjölfarið. Þá segir Sirrý að hún sjái að hryðjuverk verði framin á Spáni og jafnvel Frakklandi á komandi ári. Bretar munu ganga úr Evrópusambandinu á árinu en Theresa May mun sitja áfram á valdastóli.
Hlusta má á spána í spilaranum hér að neðan.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila