Atvinnuveganefnd leggur til breytingar á frumvarpi um veiðigjöld

Atvinnuveganefnd Alþingis hefur afgreitt frumvarp um veiðigjöld til annarar umræðu og leggur til nokkrar breytingar. Nefndin leggur til að frítekjumark nemi 40% af fyrstu 6 m.kr. álagningar hvers árs hjá hverjum gjaldskyldum aðila. Með þessu leitast nefndin við að koma sérstaklega til móts við litlar og meðalstórar útgerðir vítt og breitt um landið. Í tilkynningu segir að breytingin sé í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur um að efla hinar dreifðu sjávarbyggðir. Þá leggur nefndin til að nytjastofnar sem hafa minna aflaverðmæti en 100 milljónir kr. samkvæmt vegnu meðaltali næstliðinna þriggja ára mynda ekki stofn til veiðigjalds. Vísar nefndin til þess að umræddir nytjastofnar veiðast oftast sem meðafli og í litlum mæli. Af þeim sökum sé erfitt að meta sérstaklega raunverulega afkomu af veiðum þeirra. Jafnframt vísar nefndin til þess að gjaldtaka á þessar tegundir getur dregið að nauðsynjalausu úr sókn í þær og aukið hættu á brottkasti.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila