Aukið gagnsæi með opnun samráðsgáttar

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, opnuðu í vikunni svokallaða samráðsgátt á vefslóðinni samradsgatt.Island.is. Markmið samráðsgáttarinnar er að auka gagnsæi og möguleika almennings og hagsmunaaðila á þátttöku í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku opinberra aðila. Í tilkynningu segir að þar sé á einum stað hægt að finna mál ráðuneyta sem birt hafa verið til samráðs við almenning, svo sem drög að lagafrumvörpum.
Öllum er frjálst að senda inn umsögn eða ábendingu og jafnframt er mögulegt að gerast áskrifandi að sjálfvirkri vöktun upplýsinga, hvort heldur er eftir málefnasviði, stofnun eða tilteknu máli. Að samráðstímabili loknu er gerð grein fyrir úrvinnslu athugasemda og niðurstöðu máls. Lögð er áhersla á skýra framsetningu og auðvelda notkun.
Samráðsgáttin er ætluð bæði almenningi og hagsmunaaðilum, svo sem í atvinnulífi, félagasamtökum og fræðasamfélagi. Fyrst um sinn munu einungis ráðuneyti setja inn mál til samráðs en líklegt er að ríkisstofnanir og e.t.v. fleiri aðilar muni bætast við síðar.
Fram kemur í tilkynningu að opnun samráðsgáttarinnar sé í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og endurspegli áherslu á góð vinnubrögð, opna stjórnsýslu og gagnsæi.
Forsætisráðherra skipar ritstjórn samráðsgáttarinnar og fer starfsmaður forsætisráðuneytisins með formennsku en auk þess eiga fjármála- og efnahagsráðuneytið og dómsmálaráðuneytið þar fulltrúa. Hýsing og dagleg tæknileg umsjón samráðsgáttarinnar er hjá Ísland.is sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila