Bretar þurfa að aðlaga sjávarútveg sinn að hækkandi sjávarhita

Nauðsynlegt er að Bretar búi sig undir talsverðar breytingar á lífríkinu á hafsvæðinu kringum Bretland með tilheyrandi afleiðingum vegna hækkandi sjávarhita í náinni framtíð. Þetta kemur fram í niðurstöðu nýrrar skýrslu breskra vísindamanna um afleiðingar af völdum hækkandi hita í hafi. Í skýrslunni kemur fram að Bretar verði að búa sig undir að einstaka tegundir fiska muni hverfa úr breskri lögsögu og að aðrar muni koma í þeirra stað, enda séu þegar merki þess að tegundir eins og þorskur og ýsa séu farnar að færa sig norðar en áður. Þá segir að óhjákvæmilega muni þessi þróun einnig hafa áhrif á neysluvenjur Breta, auk annara þátta eins og atvinnuuppbyggingu og búsetuskilyrði, en þó sé ekki hægt að slá því föstu hversu miklar og á hversu löngum tíma þessar breytingar kunna að verða. Búist er við að hækkun á hitastigi í sjó muni halda áfram á þeirri braut sem hún hefur verið undanfarin þrjátíu ár en á þeim tíma hefur hækkunin verið að meðaltali 1,5 gráður, en líklegt er talið að sú þróun muni standa yfir allt til lok þessarar aldar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila