Brugðist við kaupum erlendra aðila á bújörðum

A dramatic mountain backdrop dwarfs a tiny hamlet , set amidst lush pastures, in rural Iceland.

Mikil umræða hefur skapast á undanförnum árum í þjóðfélaginu um kaup erlendra aðila á bújörðum hér á landi. Dæmi eru um það að sami aðili hafi keypt margar jarðir á stóru svæði án þess að þar sé fyrirhuguð búseta eða að ræktanlegt land sé nýtt. Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákveðið að bregðast við þeirri umræðu og gagnrýni sem fram hefur komið vegna sölu jarða til erlendra aðila. Því hefur verið ákveðið að skipa þriggja manna starfshóp til að leggja mat á það hvaða takmarkanir komi helst til greina til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins.

Hópnum verður jafnframt ætlað að skoða þær takmarkanir sem er að finna í löggjöf nágrannalanda Íslands eins og Noregs, Danmörku og Möltu og rúmast innan marka EES-samningsins. Í dönsku jarðalögunum er m.a. eignarhald á landbúnaðarlandi takmarkað og skilyrði sett fyrir kaupum erlendra ríkisborgara.  Þá mun hópurinn gera tillögu til ráðherra um nauðsynlegar breytingar á lögum í samræmi við framangreint. Gert er ráð fyrir að hópurinn verði skipaður þremur fulltrúum; einum tilnefndum af innanríkisráðherra, einum tilnefndum af Bændasamtökum Íslands en að formaður hópsins verði skipaður af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra án tilnefningar. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili tillögum sínum eigi síðar en í júní 2017.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila