Dómsmálaráðherra kynnti sér starfsemi Héraðssaksóknara

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra heimsótti embætti héraðssaksóknara í vikunni. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari tók á móti ráðherra og fylgdarliði ásamt nokkrum samstarfsmönnum sínum og kynntu þau ráðherra starfsemina.
Í kynningu sinni fór Ólafur Þór yfir aðdraganda að stofnsetningu embættis héraðssaksóknara en undanfari þess var embætti sérstaks saksóknara. Meðal helstu verkefna héraðssaksóknara er að saksókn í málum sem ríkissaksóknari hefur til þessa ákært í flyst til héraðssaksóknara og lögreglustjóra.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.Ólafur sagði brýnustu úrlausnarefni embættisins vera þau að ljúka málum er varða hrunið og afleiðingar þess, klára vinnu við eldri mál á saksóknarsviði sem fluttust til embættisins frá ríkissaksóknara, standast kröfur sem gerðar eru til embættisins vegna verkefna á sviði peningaþvættis og að koma á legg sérstakri einingu sem annast upptöku ólögmæts ávinnings og umsýslu kyrrsettra eigna.

Sigríður Á. Andersen sagði heimsóknina hafa verið bæði gagnlega og fræðandi en þetta er í fyrsta skipti sem hún heimsækir embættið. „Ég fékk þarna mikilvæga innsýn inn í verklag þeirra og stöðu mála ásamt því hvað embættinu þætti brýnast að takast á við á þessum tímapunkti.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila