Dómsmálaráðherra sótti prestastefnu í Þýskalandi

Í ár eru 500 ár liðin frá þeim atburði sem almennt er talið að hafi markað upphaf siðbótar. Af því tilefni var ákveðið að prestastefna skyldi haldin utan landsteinanna en hún var haldin í Wittenberg í Þýskalandi á dögunum. Í Wittenberg bjó og starfaði Marteinn Lúther og þar kom hann á framfæri kenningum sínum um kristna trú með því að festa á dyr Hallarkirkjunnar í Wittenberg kenningar sínar í 95 greinum. Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra flutti ávarp við setningu prestastefnunnar þar sem hún gerði siðbótina meðal annars að umtalsefni “ Um siðbótina hefur æði mikið verið sagt og ritað, svo sem nærri má geta þegar horft er til þýðingar hennar í sögunni. Á þeim tímum þar sem einfaldar skýringar eru í hávegum hafðar, ekki síst ef þær eru bornar fram með alvörusvip og hæfilegum þótta, er auðvelt að skýra siðbótina með því að benda á spillingu innan kaþólsku kirkjunnar og deilur innan hennar um auð og embætti. En sú einfalda skýring nægir ekki þeim sem vill skilja siðbótina, sér til gagns. Þar skiptir fleira miklu máli. Ástand kirkjunnar, þegar leið að siðbót, var á margan hátt dæmi um það sem gerist þegar kirkja verður viðskila við mikilvæg atriði í grunni sínum og rótum. Þannig hefur ástandi kirkjunnar í upphafi sextándu aldar verið lýst þannig, að það hafi einfaldlega verið alvarlegt einkenni þess sjúkdóms kirkjunnar sem falist hafi í fráhvarfi frá þeim grundvallarhugmyndum sem gera kristindóminn ólíkan öllum öðrum trúarbrögðum, og í því að kirkjan hafi gleymt fyrir hvað hún stóð og hvað í raun felist í kristindóminum.“,sagði Sigríður.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila