Efla vöktun á ástandi Mývatns

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur falið Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn (RAMÝ) og Umhverfisstofnun að efla vöktun á innstreymi næringarefna í Mývatn og fleiri þáttum nú í sumar. Slíkt sé nauðsynlegur þáttur í tengslum við aðgerðir til að draga úr áhrifum mannsins á lífríki vatnsins, s.s. í fráveitumálum.
Lífríki Mývatns hefur verið vaktað um áratugaskeið, einkum af RAMÝ. Að mati RAMÝ og annara er æskilegt að efla vöktun á sumum þáttum, sérstaklega innstreymi næringarefna í vatnið og blábakteríu- og þörungablómum, sem eru mjög umfangsmiklir sum ár en minni önnur. Ráðuneytið lét gera samantekt á stöðu mála varðandi uppsprettur og innstreymi næringarefna í Mývatn, sem kom út í ársbyrjun 2016, en þar og í skýrslu starfshóps um málefni Mývatns síðar á árinu komu fram tillögur um að efla vöktun á þessum þáttum.
Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra hefur óskað eftir áætlunum um umbætur í fráveitumálum frá sveitarstjórn Skútustaðahrepps og rekstaraðilum við Mývatn fyrir 17. júní nk. Sveitarstjórnin hefur óskað eftir aðstoð frá ríkisvaldinu við þetta verkefni og sent erindi þess efnis. Ríkisstjórnin samþykkti 5. maí heimild til að ræða við sveitarfélagið um mögulega aðkomu ríkisins að fráveituframkvæmdum.
Með vöktuninni er vonast til að fáist betri mynd af innstreymi næringarefna í Mývatn og hlut einstakra uppsprettna, sem geti gagnast varðandi áherslur og forgangsröðun aðgerða. Einnig eru bundnar vonir við að betri vöktun gagnist í framtíðinni við að meta árangur aðgerða. Stefnt er að því að efld vöktun á næringarefnum og blábakteríu- og þörungasvifi hefjist strax nú í sumar, en að heildstæð vöktunaráætlun á Mývatni, þar sem tillit er tekið til fleiri þátta og núverandi vöktun er felld inn, liggi fyrir í haust.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila