Eigandi Sjanghæ stefnir RÚV vegna falsfréttar

Rosita YuFan Zhang er eigandi veitingastaðarins Sjanghæ á Akureyri.

Rosita YuFan Zhang eigandi veitingastaðarins Sjanghæ á Akureyri hefur falið lögmanni sínum, Jóhannesi Má Sigurðarsyni að stefna Ríkisútvarpinu fyrir hennar hönd vegna umfjöllunar fréttastofu RÚV þar sem því var meðal annar haldið fram að mansal ætti sér stað á veitingahúsinu. Í tilkynningu frá lögmanni Rositu segir meðal annars frá því hvernig umfjöllunin kom henni í opna skjöldu þegar hún hafi átt sér einskis ills von, en upplifun sinni lýsir hún í bréfi sem fylgir fréttatilkynningunni “ Hafi hún verið að koma af skólasetningu Tónlistarskólans á Akureyri með 8 ára dóttur sinni, og ætlunin hafi verið að snæða kvöldverð á veitingastaðnum. Þegar þangað var komið hafi þeim mætt lið fréttamanna með myndavélar og tækjabúnað, sem hafi reynst dóttur hennar afar erfitt. Hafi dóttir hennar í kjölfarið falið sig hágrátandi inni á veitingastaðnum og haft miklar áhyggjur af því hvort móðir hennar væri að fara í fangelsi„,segir í fréttatilkynningunni.

Hefur unnið í því að koma íslenskum vörum á framfæri í Kína

Þá segir í tilkynningunni að Rosita hafi meðal annars átt drjúgan þátt í að kynna Ísland og íslenskar vörur fyrir kínverskum kaupmönnum “ Þau verkefni hafa mörg hver varðað samskipti íslenska ríkisins og Kína. Í samskiptum ríkjanna hafi hún margsinnis staðið við hlið háttsettra fulltrúa kínverska alþýðulýðveldisins sem og fulltrúa íslenska ríkisins, einkum forseta Íslands, m.a. í heimsóknum hans og samskiptum við kínversk stjórnvöld. Greinir hún frá því að árið 2010 hafi hún haldið blaðamannafund á 5 stjörnu hóteli í Shanghai-borg, þar sem forseti Íslands, 600 kínverskir söluaðilar og fulltrúar 20 fjölmiðla voru viðstaddir. Þessi fundur varð til þess að auka mjög sölu á íslenskum vörum í Kína, og opnaði m.a. á viðskiptasamband íslenskra vara í gegnum fyrirtækin Alibaba og AliExpress, sem margir íslendingar þekkja vel. Þá sé hún frumkvöðull í ferðaþjónustu kínverja til Íslands„,segir í tilkynningunni.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila