Eiturefnanotkun í landbúnaði farin að ógna matvælaöryggi

Notkun eiturefna í landbúnaði, svo sem skordýraeiturs er farin að ógna matvælaöryggi sakvæmt niðurstöðum úr nýjum rannsóknum. Rannsóknirnar sem gerðar voru sneru að því að varpa ljósi á fækkun býflugna á ákveðnum svæðum í Bandaríkjunum sýna fram á að jafnhliða fækkun meindýra sem hafa valdið skemmdum á uppskeru fækkar býflugum að sama skapi en þær eru nauðsynlegur hluti af því ferli að uppskera verði blómleg. Nú er svo komið að fækkun býflugna er orðin svo mikil á ákveðnum svæðum í Bandaríkjunum að bændur horfa upp á stórfelldan uppskerubrest á algengum tegundum ávaxta og því ljóst að fækkunin ógnar matvælaöryggi sem og afkomu bændanna. Býflugur sem rannsakaðar voru á þeim svæðum sem komu verst út úr rannsóknunum voru margar hverjar ófrjóar vegna mengunar í grunnvatni og því verður lítil nýliðun á stofnum á þeim svæðum. Vísindamenn benda á að verði ekki gripið til aðgerða til að sporna við þessari þróun geti hún haft gríðarlega afleiðingar bæði hvað varðar matvælaöryggi sem og efnahagslegar afleiðingar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila