Endurskoða lög um mat á umhverfisáhrifum

Húsfyllir var á upphafsfundi umhverfis- og auðlindaráðherra vegna endurskoðunar laga um mat á umhverfisáhrifum. Fundurinn var haldinn á Grand hóteli í vikunni með þjóðfundarsniði.
Til fundarins var boðið félagasamtökum, framkvæmdaraðilum, sveitarfélögum, stofnunum, háskólafólki og öðrum hagsmunaaðilum en markmið fundarins var að leita eftir sjónarmiðum fundargesta vegna fyrirhugaðrar endurskoðunar á lögum um mat á umhverfisáhrifum.
Á fundinum sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, lög um mat á umhverfisáhrifum mikilvægt tæki við ákvarðanatöku í málum sem varða umhverfi og náttúru enda væri þeim m.a. ætlað að tryggja aðkomu almennings að henni. „Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er talað um að gera málsmeðferð skilvirkari og tryggja rétt samtaka almennings að ákvörðunum á fyrri stigum leyfisveitingarferlis án þess að ganga á rétt þeirra. Þarna er ákveðið leiðarljós sem kannski má stytta ofan í tvö orð: lýðræði og skilvirkni. Að baki liggur síðan auðvitað verndun umhverfisins.“
Að loknu inngangserindi ráðherra tóku fundargestir þátt í samtali á borðum þar sem leitast var við að svara ákveðnum grundvallarspurningum varðandi mat á umhverfisáhrifum. Þær spurningar sem lagðar voru fyrir gesti voru með hvaða hætti hægt sé að tryggja sem best lýðræðislega aðkomu almennings, félagasamtaka og haghafa að ferli við mat á umhverfisáhrifum og hvernig hægt sé að auka skilvirkni í ákvarðanatöku við mat á umhverfisáhrifum.
Á næstunni verður skipaður starfshópur til að vinna að endurskoðun laganna. Samhliða verður ráðinn sérfræðingur sem mun hafa það verkefni að greina núverandi löggjöf og skoða sambærilega löggjöf og ferli umhverfismats í okkar nágrannaríkjum. Þá verður á næstu dögum opnað fyrir samráð í Samráðsgátt Stjórnarráðsins þar sem kallað verður eftir hugmyndum almennings og hagaðila um hvaða breytinga sé þörf á lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila