Enn víða ófært á landinu

Enn er víða ófært á vegum og ekki útlit fyrir að aðstæður breytist fyrr en veður gangi niður. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er búist við að vindur gangi hægt niður norðaustanlands og þá er búist við að vindhraði verði 13-15 m/s um miðjan daginn á vegum sem enn eru lokaðir, s.s. Fagradal, Mörðudalsöræfum og á Fjarðarheiði. Gert er ráð fyrir að á þeim slóðum batni veður upp úr miðjum degi, en á Fjarðarheiði verður éljagangur og skafrenningur fram á kvöld. Vindur gengur hins vegar ákveðið niður suðaustanlands þegar kemur fram á daginn.
Eins og fyrr segir er enn erfið færð víða en nokkur hálka eða hálkublettir er víða á Suðurlandi. Þá er hálka og skafrenningur á Holtavörðuheiði. Hálka, hálkublettir og snjóþekja eru á Vesturlandi og Vestfjörðum og þæfingur í uppsveitum Borgafjarðar. Á Norðvesturlandi er hálka en snjóþekja og snjókoma er á Vatnsskarði, þæfingur er á Siglufjarðarvegi frá  Ketilás í Siglufjörð. Þæfingur og éljagangur er í Blönduhlíð.
Á Norðausturlandi er hálka, snjóþekja og skafrenningur. Lokað er um Hófaskarð og þæfingur og stórhríð er frá Þórshöfn í Bakkafjörð. En er beðið með mokstur á Austurlandi vegna veðurs. Lokað er bæði á Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði og Fagradal vegna veðurs. Greiðfært er að mestu á Suðausturlandi en eitthvað er um hálkubletti. Óveður og hálkublettir eru í Hamarsfirði.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila