Fjallað um Unga fólkið, ferðaþjónustu og hafið á fundi samstarfsráðherra Norðurlandanna

Formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni, sem hefst um næstu áramót, var til umræðu á fundi samstarfsráðherra Norðurlandanna sem fram fór í Lundi í Svíþjóð í dag.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlandanna, gerði grein fyrir fyrirhuguðum áherslum Íslands á formennskuárinu 2019 en þá mun Ísland meðal annars leggja áherslu á málefni ungs fólks, sjálfbæra ferðaþjónustu í norðri og málefni hafsins.
Ísland mun frá og með næstu áramótum stýra samnorrænum verkefnum á þessum sviðum sem fjármögnuð verða af Norrænu ráðherranefndinni.  Fyrirkomulag ráðherranefndarinnar er háttað þannig til að Norðurlöndin skiptast á að stýra nefndinni og á næsta ári er komið að Íslandi.
Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar sem jafnframt er samstarfsráðherra Norðurlandanna, stýrði fundinum en á honum var einnig rætt um sameiginlegt kynningarstarf og annað alþjóðlegt samstarf Norðurlandanna á alþjóðavettvangi. Þá komu málefni Norður-Atlantshafssvæðisins til umræðu og nauðsyn þess að Norðurlöndin fylgdu sameiginlegri stefnu á þessu risastóra og mikilvæga svæði, með tilliti til efnahagslegrar uppbyggingar, umhverfismála, samgangna og byggðamála. Loks var rætt um mikilvægi áframhaldandi samvinnu Norðurlandanna sín á milli til dæmis með því að styrkja stúdentaskipti (Nordplus) og taka upp sameiginleg rafræn skilríki á Norðurlöndunum.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila