Fjallað um varnar og öryggismál á samráðsfundi íslenskra og bandarískra embættismanna

Reglubundinn samráðsfundur háttsettra íslenskra og bandarískra embættismanna um alþjóðamál og öryggis- og varnarmál fór fram í Washington DC í gær, þriðjudag. Á fundinum var rætt um öryggismál Evrópu og tvíhliða samstarf landanna á grundvelli varnarsamningsins frá 1951. Á fundinum var meðal annars gerð var grein fyrir nýrri þjóðaröryggisstefnu Íslands og starfsemi þjóðaröryggisráðsins. Þá var fjallað um málefni tengd Atlantshafsbandalaginu, þ.m.t. undirbúning fyrir fyrirhugaðan leiðtogafund í júlí á næsta ári. Málefni norðurslóða voru einnig á dagskrá fundarins. Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, fór fyrir íslensku sendinefndinni en auk utanríkisráðuneytisins tóku þátt fulltrúar Landhelgisgæslunnar, ríkislögreglustjóra, dómsmálaráðuneytis, forsætisráðuneytis og þjóðaröryggisráðs. Fyrir bandarísku sendinefndinni fóru Tom Goffus, aðstoðar-varnarmálaráðherra og Sharon Hudson-Dean, aðstoðar-utanríkisráðherra.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila