Fjölbrautarskólinn í Ármúla fékk Rafknúið hjól og augnstýribúnað að gjöf

Frá afhendingu búnaðarins.

Nýlega fengu nemendur á sérnámsbraut Fjölbrautaskólans við Ármúla tvö ný tæki að gjöf og var þeim formlega veitt viðtaka í dag. Mennta- og menningarmálaráðherra var viðstödd athöfnina, kynnti sér starfsemi skólans og ræddi við nemendur og starfsfólk.

Í heimsókninni fékk ráðherrann góða kynningu á starfseminni, leit við í kennslustundum og ræddi við stjórnendur, starfsfólk og nemendur FÁ. Ráðherra var mjög hrifinn af starfsemi skólans, sagði aðstöðuna til mikillar fyrirmyndar og að skólinn byggi greinilega yfir skapandi nemendum og metnaðarfullu starfsfólki.
Fjölbrautaskólinn við Ármúla er áfangaskóli og kjarnaskóli heilbrigðisgreina. Í skólanum er boðið upp á nám til stúdentsprófs á öllum bóknámsbrautum, auk viðbótarnáms til stúdentsprófs að loknu starfsnámi. Einnig er í boði nám til starfsréttinda á átta brautum á heilbrigðissviði, auk framhaldsnáms á fjórða þrepi fyrir sjúkraliða og lyfjatækna, sem og tveggja ára nám á nýsköpunar- og listabraut. Almenn námsbraut er starfrækt við skólann og sérstaklega er hugað að þörfum nemenda með annað móðurmál en íslensku en nemendur af erlendum uppruna eru að jafnaði í kringum 10-15% af nemendum skólans.
Við skólann er einnig sérnámsbraut fyrir nemendur með fötlunargreiningu en nemendur eru 32 nú á vorönn. Hlutverk og markmið brautarinnar er að nemendur fái tækifæri til að stunda nám við hæfi innan félagsheildar fjölbrautaskóla til að viðhalda og auka þekkingu sína og færni til að takast á við viðfangsefni daglegs lífs. Lögð er áhersla á að nemendur á brautinni einangrist ekki heldur séu þeir hluti af skólaheildinni og taki sem virkastan þátt í félagslífi á skólatíma.
Tækin sem skólanum voru færð að gjöf eru Modomedhjól (rafknúið hjól) sem gefið er af Byko og Tobii augnstýribúnaður sem gefinn er af Sunnusjóði. Modomedhjólið eykur möguleika þeirra sem ekki geta notað hefðbundið hjól til þjálfunar og geta ekki stýrt hjóli sjálfir en augnstýribúnaðurinn gerir nemendum kleift að tjá sig og hafa þannig áhrif á það sem þeir eru að gera með því að stjórna músarbendli með augunum.
Ólafur Hjörtur Sigurjónsson skólameistari FÁ segir búnaðinn koma í góðar þarfir: „Skólar eiga að undirbúa nemendur fyrir hinn raunverulega heim er iðulega sagt. Þetta getur verið snúið verkefni og gerir það að verkum að hlutverk menntunar og þjálfunar hvers konar verður sífellt mikilvægara fyrir alla nemendur.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði framtakið vera til fyrirmyndar „Það er ánægjulegt að kynna sér þá fjölbreyttu kennslu og kröftuga félagslíf sem á sér stað í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Skólinn er í fararbroddi þegar kemur að þjónustu við nemendur með mikla fötlun. Það er mikilvægt að nám sé aðgengilegt óháð efnahag og aðstæðum. Ég er sannfærð um að þessar veglegu gjafir munu auka lífsgæði nemenda við skólann. Þetta framtak er til fyrirmyndar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila