Fjöldi íslenskra fyrirtækja á stærstu ferðasýningu heims

Metfjöldi íslenskra fyrirtækja er nú staddur í Berlín á ITB ferðasýningunni, en sýningin er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum. Allra jafna sækja hana um 170.000 gestir þar af um 110.000 fagaðilar. Auk þess að vera stærsta ferðasýning í heimi er ITB jafnframt einn stærsti vettvangur ráðstefna, funda og fræðslu um þróun og nýjungar í ferðaþjónustu á heimsvísu.
Mikið líf og fjör var á Íslandsbásnum fyrsta sýningardaginn en það er Íslandsstofa sem annast skipulagningu Íslandsbássins á sameiginlegu norrænu sýningarsvæði ITB. Á Íslandsbásnum taka að þessu sinni 29 íslensk ferðaþjónustufyrirtæki og þrjár markaðs­stofur landshluta þátt undir merkjum Inspired by Iceland. Aldrei hafa fleiri íslenskir aðilar tekið þátt á Íslandsbásnum og eru yfir 100 Íslendingar á svæðinu. Meðal sýnenda á íslenska básnum eru ferðaskrifstofur, hótel, flugfélag og afþreyingar­fyrirtæki. Unnið er að markmiðum í íslenskri ferðaþjónustu þar sem lögð er áhersla á að hvetja ferðamenn og erlenda ferðaheildsala til þess að kynna sér ferðaþjónustu um land allt, árið um kring með ábyrgð og öryggi að leiðarljósi.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila