Fjölskylda Hauks Hilmarssonar fundar með utanríkisráðherra í dag

Haukur Hilmarsson

Fjölskylda Hauks Hilmarssonar sem talinn er hafa fallið í bardaga í Afrin héraði í Sýrlandi mun í dag funda með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra um leitina að Hauki sem staðið hefur yfir síðan í byrjun síðustu viku. Aðstandendur Hauks gagnrýna framgöngu stjórnvalda í málinu og segja getuleysi þeirra til að upplýsa um afdrif Hauks algjört. Þá segir í yfirlýsingu frá aðstandendum að það hafi verið fjölskyldunni mikið áfall að svo virðist sem áhersla á að upplýsa málið sé lítil sem engin. Í gær fundaði fjölskylda Hauks með starfsmönnum Utanríkisráðuneytisins þar sem upplýst var að engin áform lægju fyrir um hvort stjórnvöld muni hafa samband við yfirvöld í Tyrklandi vegna málsins og segir fjölskyldan að Guðlaugur Þór hafi neitað að sitja þann fund “ Utanríkisráðherra neitaði að mæta á fundinn en fékkst til þess, eftir þaulsetu aðstandenda í húsakynnum ráðuneytisins og hótanir um fjölmiðlafár, að hitta okkur daginn eftir. Hann ætlaði þó að setja það skilyrði að einungis tveir aðstandendur mættu á fundinn en þeim afarkosti var vitanlega hafnað. Við eigum því fund með ráðherra kl. 15 í dag. Við viljum þakka starfsfólki Utanríkisráðuneytis og lögreglu fyrir hlýhug og vinsemd sem þau hafa sýnt okkur. Við efumst ekki um samúð þeirra og vilja til að leysa málið en getuleysið er æpandi og ekki að sjá að neinn beri ábyrgð á upplýsingaöflun um málið„.

Markmið fundarins í dag afar skýrt

Í yfirlýsingu sinni segja aðstandendur Hauks að markmið þess fundar sem fram fari í dag sé afmarkað og skýrt “ Markmið fundarins í dag er það er að gera Utanríkisráðherra grein fyrir því að þegar ríki sem er í hernaðarsamstarfi við Ísland drepur íslenskan ríkisborgara, þá geti Utanríkisráðherra ekki hegðað sér eins og hernaðaryfirvöld þess ríkis hafi skotið flækingshund. Við krefjumst þess að Utanríkisráðherra sjái tafarlaust til þess að haft verði beint samband við yfirvöld í Tyrklandi og Nató og upplýsinga aflað um það hvort Haukur er lífs eða liðinn. Enn fremur að ef Tyrkir eru með líkamsleifar Hauks, sjái Utanríkisráðherra til þess að þær verði sendar til Íslands„.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila