Fresta gildistöku nýs greiðsluþátttökukerfis vegna tímaskorts

greidsluthatttakaHeilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fresta innleiðingu á nýju greiðsluþátttökukerfi vegna heilbrigðisþjónustu til 1. maí næstkomandi. Ákvörðunin byggist á því að meiri tíma þurfi til að undirbúa kerfisbreytinguna, fyrst og fremst vegna ýmissa tæknilegra örðugleika við útfærslu hennar.
Alþingi samþykkti 2. júní sl. breytingu á lögum um sjúkratryggingar þar sem kveðið var á um grundvallarbreytingar á fyrirkomulagi á greiðslum sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu. Lögin öðlast gildi 1. febrúar nk.
Samkvæmt nýju greiðsluþátttökukerfi mun vera tryggt að mánaðarlegar greiðslur fólks fyrir heilbrigðisþjónustu fari aldrei yfir tiltekið hámark og að þar með verði jafnframt sett þak á árleg heildarútgjöld fólks fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem fellur undir nýja greiðsluþátttökukerfið. Undir nýja kerfið fellur þjónusta heilsugæslu, sjúkrahúsa, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna, rannsóknir og geisla- og myndgreining.
Velferðarráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands hafa á liðnum mánuðum undirbúið gildistöku laganna og innleiðingu á nýju greiðsluþátttökukerfi með það að markmiði að kerfið tæki gildi 1. febrúar. Fram hefur komið af hálfu Sjúkratrygginga Íslands að lengri tíma þurfi til að innleiða reglugerð um tilvísanir fyrir börn en áætlað var vegna vinnu við forritun og kynningu á kerfinu. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og fleiri aðilar hafa einnig lýst áhyggjum yfir naumum tíma til innleiðingar þessara kerfisbreytinga, meðal annars vegna nauðsynlegra hugbúnaðabreytinga, tenginga á kerfum milli stofnana og vegna viðeigandi villuprófana á kerfinu áður en það verður tekið í notkun.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila