Frumvarp um rafrettur lagt fyrir Alþingi

Heilbrigðisráðherra mun leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um rafrettur sem felur í sér heildstæðar reglur um innflutning, sölu og markaðssetningu á rafrettum og áfyllingum fyrir þær, auk ákvæða um eftirlit og skorður við notkun þeirra. Ráðherra kynnti frumvarpið á fundi ríkissstjórnar í liðinni viku.
Frumvarpið er liður í innleiðingu Evróputilskipunar sem fjallar um samræmingu löggjafar aðildarríkjanna um framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum. Með frumvarpinu er lagt til að sambærilegar reglur gildi um notkun rafsígarettna og um notkun reyktóbaks og einnig um markaðssetningu og aldursmörk.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að óheimilt verði að selja áfyllingar með nikótónvökva sem inniheldur meira nikótín en nemur 20 mg./ml., áfyllingarnar mega ekki rúma meira en 10 ml. af vökva og óheimilt verður að selja einnota hylki til áfyllingar sem rúma meira en 2 ml. af vökva. Þessar takmarkanir eru í samræmi við fyrrnefnda Evróputilskipun. Enn fremur er lagt til að óheimilt verði að flytja inn, framleiða eða selja áfyllingar sem innihalda tiltekin efni, svo sem vítamín, koffín, tárín og fleiri efni.
Neytendastofu verður falið að sinna markaðseftirliti með rafrettum og áfyllingum samkvæmt frumvarpinu. Miðað er við að framleiðendum og innflytjendum rafsígarettna og áfyllingaríláta sem þeir hyggjast setja markað hér á landi, verði skylt að senda Neytendastofu tilkynningu um slíkt 6 mánuðum áður en fyrirhugað er að varan fari á markað.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila