Fundað um hagsmunamál frumbyggja á Norðurslóðum

Fulltrúar frumbyggja voru meðal þeirra sem sóttu fundinn.

Málefni frumbyggja, sjálfbær samfélög og sameiginlegar áskoranir á norðurslóðum voru til umræðu á málstofu í Norræna húsinu í vikunni. Meðal annars var rætt um nauðsyn þess að bæta netsamband á norðurslóðum sem er mikið hagsmunamál og forsenda bættrar heilbrigðisþjónustu, betri menntunar og aukinna atvinnutækifæra á svæðinu. Þá var rætt um almennt um lífskjör, mannréttindi og jafnréttismál meðal frumbyggja á norðurslóðum.

Hnattvæðingin og hröð bráðnun jökla á norðurhvelinu hefur komið norðurslóðum á kortið í heimsmálaumræðunni,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í opnunarávarpi sínu. „Frumbyggjar og aðrir íbúar norðurslóða verða að vinna saman að sjálfbærum lausnum sem miða að því að laga hefðir og nútímahagkerfi að breyttum aðstæðum á norðurslóðum.“ Ráðherrann sagði samvinnu verða lykilstef í formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu sem hefst á næsta ári.
Frumbyggjar eru um fimm prósent mannkyns en yfir tíu prósent íbúa á norðurslóðum. Staða frumbyggja innan Norðurskautsráðsins er sterk en sex samtök þeirra eiga aðild að ráðinu. Þau eru frumbyggjasamband norðurhéraða Rússlands (Russian Association of Indigenous Peoples of the North), Alþjóðaráð Gwich‘in þjóðarinnar (Gwich‘in Council International), Alþjóðasamband Aleuta (Aleut international Association), Norðurslóðaráð Athabaska (Arctic Athabaskan Council), Samaráðið (Saami Council) og Inúítaráð norðurslóða (Inuit Circumpolar Council). Það voru Utanríkisráðuneytið, frumbyggjaskrifstofa Norðurskautsráðsins, Norðurslóðanet Íslands, Rannsóknarsetur um norðurslóðir og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar stóðu fyrir málstofunni í tilefni af samráðsfundi utanríkisráðuneytisins og fulltrúa frumbyggjasamtaka í Norðurskautsráðinu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila