Gera úttekt á heildsölu lyfja á Íslandi

Velferðarráðuneytið hefur samið við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um úttekt á heildsölu lyfja hér á landi.  Í tilkynningu segir að skoðað verði hvernig heildsala hefur þróast í kjölfar lagabreytinga árið 1996, hver sé þörf heildsölu- og dreifingarfyrirtækja fyrir álagningu og hvernig samkeppni á heildsölumarkaði með lyf hér á landi er háttað. Fram kemur að verkefnið tengist úttekt á smásölu lyfja sem ráðuneytið hafði áður ákveðið að ráðast í.
Þá segir í tilkynningunni að skoðaðir verði reikningar heildsölufyrirtækja og þeir bornir saman við innflutningstölur. Auk þess verði fjölmörg önnur atriði könnuð en þau má sjá hér að neðan:
  • Tekinn verður saman kostnaður við heildsölu. Stærð fyrirtækja og markaðshlutdeild verður skoðuð og hugað að því hvort samhengi er með þessu og afkomu fyrirtækja á markaðinum.
  • Skoðað verður hvernig heildsölu á lyfjum er háttað í grannlöndum Íslands.
  • Skoðuð verða áhrif lagabreytingarinnar 1996, þar sem hámarksverð kom í stað heildsöluálagningar, og því velt upp, eftir því sem gögn leyfa, hvaða áhrif breytingin hafði á kostnað, verð og afkomu í heildsölu.
Ger er ráð fyrir að verkinu ljúki fyrir næstu áramót með skýrslu Hagfræðistofnunar til ráðuneytisins.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila