Gera úttekt á þjóðhagslegum áhrifum hvalveiða

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tók í dag við undirskriftum 50.424 einstaklinga sem krefjast þess að Faxaflói verði lýstur griðarsvæði hvala. Það voru fulltrúar frá IFAW (International Fund for Animal Welfare), Hvalaskoðunarsamtökum Íslands og Samtökum ferðaþjónustunnar afhentu ráðherra undirskriftirnar. Ráðherra sagði við það tilefni að hann hefði á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun gert grein fyrir að hann hefði óskað eftir því við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að stofnunin meti þjóðhagsleg áhrif hvalveiða og áhrif þeirra á aðrar atvinnugreinar. Stofnunin skilaði slíkri skýrslu árið 2010 en þá kom fram að þjóðhagslega hagkvæmt teldist að halda hvalveiðum áfram. Þær niðurstöður og aðrar verða því endurmetnar miðað við þróun síðustu ára og er áætlað að skýrslunni verði skilað til ráðherra í september á þessu ári. Þá hefur ráðherra jafnframt  óskað eftir því við Hafrannsóknastofnun að stofnunin meti fæðuþörf hvala og vægi þess í lífríki sjávar hér við land. Framangreind vinna mun meðal annars nýtast við ákvörðun ráðherra um hvort gefin verði út áframhaldandi kvóti til hvalveiða þegar núverandi kvótatímabili líkur við lok þessa árs.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila