Gray Line kærir Isavia til Samkeppniseftirlitsins

Ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line hefur kært Isavia til samkeppniseftirlitsins vegna fyrirhugaðrar gjaldtöku Isavia af hópferðabílum við flugstöðina í Keflavík. Í kærunni segir að það sé mat Gray Line að fyrirhuguð gjaldtaka sé margfalt hærri en eðlileg geti talist og vegi alvarlega að hagsmunum neytenda, og að með gjaldtökunni sé Isavia að misnota einokunarstöðu sína.
 Þá segir Gray Line í kærunni að á Heathrow flugvelli sé tekið 3.900 kr. gjald fyrir stóra hópferðabíla sem sækja farþega. Isavia ætlar hins vegar frá og með 1. mars næstkomandi að taka 19.900 kr. fyrir hvert skipti sem stór rúta sækir farþega í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Gjald Isavia er fimmfalt hærra en á Heathrow. Á flugvöllum á borð við Kaupmannahöfn, Billund og Stokkhólm og fleiri á Norðurlöndunum er ekkert slíkt gjald tekið og á Gatwick flugvelli er það 2.400 kr. Gert er ráð fyrir að gjaldið verði innheimt af hópferðabílum sem nýta svokölluð fjarstæði, langt frá flugstöðinni. Þessi gjaldtaka er til viðbótar við nýlegan samning Isavia við tvö hópferðafyrirtæki sem fá aðstöðu upp við flugstöðina og greiða þau 33-42% af farmiðasölu sinni til Isavia fyrir hana, eða rúmlega 300 milljónir króna á ári.
Í tilkynningu frá Gray line segir meðal annars “ Gray Line fer þess á leit við Samkeppniseftirlitið að það taki ákvörðun til bráðabirgða um að stöðva fyrirhugaða gjaldtöku Isavia. Gray Line bendir á að akstur með farþega frá flugstöðinni sé hluti af heildarviðskiptum sem fyrirtæki í ferðaþjónustu hafi byggt upp erlendis með miklum markaðskostnaði og fjárfestingum árum saman. Skyndileg og mikil hækkun stefni þessum viðskiptum í hættu svo óbætanlegur skaði geti hlotist af. Jafnframt sé vegið að umhverfisvænum og hagkvæmum ferðamáta milli flugvallarins og höfuðborgarsvæðisins.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila