Guðrún Lilja valin Jólastjarnan 2016

gudrun12Leitin að Jólastjörnunni 2016 lauk síðastliðinn fimmtudag en um er að ræða árlega þáttaröð á Stöð 2 þar sem ungir söngvarar láta ljós sitt skína og keppast um titilinn eftirsótta. Í ár var það hin unga og efnilega Guðrún Lilja Dagbjartsdóttir sem hlaut titilinn. Upphaflega tóku rúmlega 200 krakkar þátt í keppninni með því að senda inn myndband. Tólf krökkum var svo boðið í úrslit sem sýnt var frá í þáttunum á Stöð 2. Þar stóð Guðrún Lilja uppi sem sigurvegari en dómarar voru Björgvin Halldórsson, Jóhanna Guðrún og Gissur Páll. Guðrún Lilja flutti í prufunum lögin Make You Feel My Love með Adele og Everybody Loves a Lover með Doris Day, sem Ellý Vilhjálms og Raggi Bjarna gerðu að smelli á íslensku. Nú bíður það verkefni Guðrúnar Lilju að koma fram á umfangsmestu jólatónleikum ársins, á stærsta sviði landsins með aragrúa af stórstjörnum laugardaginn 10. desember í Höllinni á Jólagestum Björgvins. Hún er í miðju kafi nú þegar að velja lög og undirbúa sín atriði með Gunnari Helga leikstjóra, Þóri Bald tónlistarstjóra og fleirum sem að tónleikunum koma. Svo taka við stífar æfingar alla tónleikavikuna sem lýkur með því að Guðrún Lilja kemur fram fyrir framan 6 þúsund tónleikagesti laugardaginn 10. desember.

Smelltu hér til þess að sjá framlag Guðrúnar Lilju

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila