Tólf ný sérhæfð dagdvalarrými verða opnuð í Hafnarfirði

Hafnarfjörður

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur veitt Hafnarfjarðarbæ rekstrarheimild fyrir tólf nýjum dagdvalarrýmum fyrir fólk með heilabilun. Hafnarfjarðarbær mun útvega húsnæði fyrir reksturinn og ábyrgjast að þjónusta við notendur verði veitt á faglegum grunni í samræmi við þarfir fólks með alzheimer og aðra minnissjúkdóma.

Leitað verður eftir samvinnu við Alzheimersamtökin sem faglegum bakhjarli þjónustunnar. Ráðherra tilkynnti um ákvörðun sína við opnun nýja hjúkrunarheimilisins Sólvangs í Hafnarfirði síðdegis í gær.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist afar ánægð með að hafa getað orðið við ósk bæjarfélagsins um að auka þessa mikilvægu þjónustu, því þörfin sé brýn:

Bætt heilbrigðisþjónusta við aldraða samhliða stórsókn í fjölgun hjúkrunar- og dagdvalarrýma er áherslumál sem ég hef sett í sérstakan forgang. Vinna við stefnumótun í málefnum fólks með heilabilun er komin vel á veg og það er alveg ljóst að fjölgun sérhæfðra dagdvalarrýma fyrir fólk með alzheimer og aðra minnissjúkdóma felur í sér mikla bót fyrir þennan sjúklingahóp og aðstandendur þeirra“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila