Hagnaður Arion dregst saman milli ára

Hagnaður Arion banka á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 nam 10,4 milljörðum króna samanborið við 17,3 milljarða króna á sama tímabili 2016. Arðsemi eigin fjár var 6,3% en var 11,2% á sama tímabili árið 2016. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Arion banka.
Í tilkynningunni segir enn fremur að afkoma Arion banka á þriðja ársfjórðungi ársins 2017 hafi verið  neikvæð um 0,1 milljarð króna samanborið við 7,5 milljarða króna hagnað á sama tímabili 2017. Arðsemi eigin fjár á fjórðungnum var neikvæð sem nemur 0,2% en var jákvæð sem nam 14,4% á sama tímabili 2016. Neikvæð afkoma á ársfjórðungnum skýrist af niðurfærslum á lánum, kröfum og öðrum eignum sem tengjast United Silicon og nema alls 3,7 milljörðum króna á fjórðungnum og 4,8 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins. Afkoma þriðja ársfjórðungs hefði numið um 2,6 milljörðum króna ef ekki hefði komið til þessa.
Heildareignir námu 1.144,9 milljörðum króna í lok september samanborið við 1.036,0 milljarða króna í árslok 2016 og eigið fé hluthafa bankans nam 221,5 milljarði króna í lok september, samanborið við 211,2 milljarða króna í árslok 2016. Efnahagur bankans er sterkur og hefur mikil áhersla verið lögð á að tryggja lausafjárstöðu í tengslum við afnám fjármagnshafta og afborganna skuldabréfa sem eru á gjalddaga snemma árs 2018. Eiginfjárhlutfall bankans var 27,1% í lok september og er óbreytt frá árslokum 2016. Hlutfall eiginfjárþáttar 1 hækkaði og nam 26,6% samanborið við 26,5% í árslok 2016.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila