Hefja stefnumótun í málefnum fólks með heilabilun

Svandís Svavarsdóttir  heilbrigðisráðherra hefur falið Jóni Snædal öldrunarlækni að móta drög að stefnu í málefnum fólks með heilabilun. Í þeirri vinnu verði lögð áhersla á þverfaglegt samstarf þjónustuveitenda og á samráð við sjúklingahópinn og aðstandendur fólks með heilabilun.
Fram kemur í tilkynningu að í þeirri vinnu verði áhersla lögð á heildarmyndina og það sem snýr að öldruðum sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda, hvort heldur er á fyrsta, öðru eða þriðja þjónustustigi þess. Fyrir skömmu átti ráðherra fund með sérfræðingum á sviði öldrunarlækninga á Landspítalanum og fleiri fundir eru áformaðir þar sem ráðherra mun m.a. kynna sér sjónarmið fagfólks sem starfar á sviði forvarna og endurhæfingar auk notenda þjónustunnar. Þá segir einnig í tilkynningunni þessi vinna sé meðal annars ætluð sem liður í undirbúningi aðgerðaáætlunar til fimm ára á grundvelli heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem nú er til umfjöllunar á Alþingi.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila