Heilbrigðismálin rædd í víðu samhengi á fundi smáþjóða á Möltu

Óttar Proppé heilbrigðisráðherra í pontu á fundi WHO.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra tók í vikunni sem leið þátt í tveggja daga fundi smáþjóða um heilbrigðismál sem haldinn var á vegum WHO (Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar).

Þetta er í fjórða sinn sem WHO stendur fyrir fundi smáríkjanna átta sem eru Andorra, Kýpur, Lúxemborg, Malta, Mónakó, Svartfjallaland, San Maríno og Ísland og eiga það sameiginlegt að íbúafjöldi hvers þeirra er innan við milljón. Á fundum þeirra er meðal annars fjallað um hvernig smáríki geta skapað fordæmi og verið fyrirmynd annarra þjóða á sviði sjálfbærra verkefna í þágu velferðar og heilsu, líkt og endurspeglast m.a. í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Viðfangsefni fundarins voru fjölbreytt þótt öll lúti þau að því sama markmiði að stuðla að sjálfbærni með bætta heilsu og líðan fólks í hlutaðeigandi samfélagi að leiðarljósi. Í umræðum sem Óttarr Proppé tók þátt í fjallaði hann meðal annars um stefnu íslenskra stjórnvalda á sviði heilbrigðismála með áherslu á að efla heilsugæsluna, efla þverfaglegt samstarf og bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Hann ræddi einnig um hvernig unnið væri að því að draga heilbrigðisáherslur inn í alla stefnumótun (heilsa í allar stefnur) og sagði frá verkefni Embættis landlæknis um heilsueflandi samfélög og áformum um að fá öll sveitarfélög landsins til þátttöku í verkefninu áður en langt um líður.

Lyfjamál voru einnig til umfjöllunar á fundinum, enda áskoranir á því sviði margar og stórar, ekki síst þegar í hlut eiga fámennar þjóðir. Erfitt getur reynst að tryggja nægt framboð nauðsynlegra lyfja á hverjum tíma, lítill markaður torveldar hagkvæm innkaup og erfitt er að skapa jafnvægi milli væntinga fólks um innleiðingu nýrra og dýrra lyfja annars vegar og raunhæfs útgjaldaramma hins opinbera hinsvegar. Ráðherra gerði þetta meðal annars að umtalsefni og hvernig mögulega mætti ná betri árangri með auknu samstarfi þjóða.

Fundi smáríkjanna á Möltu lauk með því að undirrituð var sameiginleg yfirlýsing þjóðanna sem lýtur að því hvernig sporna megi við vaxandi offitu barna og stuðla að bættum uppvaxtarskilyrðum þeirra og heilbrigðari lífsstíl með fjölþættum aðgerðum. Yfirlýsingin verður kynnt nánar þegar hún hefur verið gerð aðgengileg á vef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila