Heilbrigðisstefna tekin til umfjöllunar í velferðarnefnd

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mælti fyrir tillögu sinni til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 á Alþingi í vikunni og er þingsályktunartillagan nú komin til umfjöllunar hjá velferðarnefnd þingsins.
 Í ræðu sinni benti ráðherra á að ákvörðun um að leggja fram heilbrigðisstefnu komi fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Það væri jafnframt grundvöllur heilbrigðisþjónustunnar og heilbrigðiskerfisins að fyrir liggi hvert stjórnvöld hyggist stefna og standa að þróun heilbrigðismála. Hún benti á að þegar rætt væri um lífslíkur og heilsu þjóða almennt skiptu allir þættir samfélagsins máli og mikilvægastir væru þeir þættir sem lúta að lífsstíl fólks, auk félagslegra og efnahagslegra þátta. Í því samhengi gegni heilbrigðisþjónustan því minna hlutverki en margir myndu ætla.
Engu að síður“, sagði ráðherra, „er góð heilbrigðisþjónusta nánast forsenda fyrir byggð í landinu. Hún sagði heilbrigðisstefnuna sem hér er til umfjöllunar snúast um heilbrigðiskerfið í hinum þrengri skilningi þar sem fjallað væri um þær grunnstoðir sem nauðsynlegar eru til að byggja upp traust heilbrigðiskerfi. Þar sem ríkið sem kaupandi þjónustunnar getur tekið ákvörðun um nauðsynlega forgangsröðun, metið mikilvægi verkefna í samræmi við þarfir notenda hverju sinni og tryggt sem jafnast aðgengi þeirra, óháð búsetu eða efnahag„.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila