Heimsmarkmið öryggismál og Brexit rædd á ráðherrafundi í Helsinki

Öryggismál, Brexit og samskiptin vestur um haf voru meðal umræðuefna á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna sem haldinn var í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Helsinki í dag. Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri, sótti fundinn í stað utanríkisráðherra og leiddi umræðu um öryggismál á norðanverðu Atlantshafi. Þá voru helstu málefni á alþjóðavettvangi, líkt og Norður-Kórea, Íran, Sýrland og Myanmar, sömuleiðis til umfjöllunar ásamt viðfangsefnum sem lúta að norrænu samstarfi.
Einnig var fundað með forsætisnefnd Norðurlandaráðs þar sem rætt var um samstarf Norðurlandanna innan Sameinuðu þjóðanna og um innleiðingu Heimsmarkmiðanna svokölluðu. Þá var rætt um stöðu öryggismála við Eystrasaltið og um samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna sem verður sífellt nánara.
Ráðuneytisstjóri tók einnig þátt í fundum þróunarmálaráðherra og utanríkisviðskiptaráðherra Norðurlandanna. Á fundi utanríkisviðskiptaráðherra var rætt hvernig Norðurlöndin geti í sameiningu lagt sitt af mörkum til að verja og styðja við framgang hins opna heimsviðskiptakerfis sem hefur átt í vök að verjast á undanförnum misserum. Hvatti Ísland til þess að Norðurlöndin nálgist málefni Brexit með opnum huga til að ná farsælli lausn.
Á fundi þróunarmálaráðherranna voru Heimsmarkmið SÞ í brennidepli auk þess sem rætt var um ýmis mál sem ofarlega eru á baugi á sviði þróunarmála s.s. heilbrigðismál, menntamál og málefni Róhingja ásamt stöðu mála er varða kyn- og frjósemisheilbrigði og réttindi. Þá leiddi Ísland umræðu um framlög til fjölþjóðastofnana.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila