Hernaðarlegt ógnarmat á Norðurlöndum rætt á fundi þjóðaröryggisráðs

Þjóðaröryggisráð kom saman í gær en þar voru kynnt og rædd þau málefni sem varða þjóðaröryggi og eru efst á baugi á þeim sviðum sem þjóðaröryggisstefna íslands tekur til.  Á fundinum samþykkti ráðið meðal annars skýrslu til Alþingis um framkvæmd þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.
Þá samþykkti þjóðaröryggisráðið að hefja undirbúning að því að ráðið leggi mat á ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum og að slíkt mat komi út í árslok. Ráðið samþykkti einnig að hefja undirbúning að mótun þjóðaröryggisvísa í samvinnu við Hagstofu Íslands o.fl. Fram kemur í tilkynningu að stefnt sé að því að fram fari æfing á neyðarfundi ráðsins í tilefni af atburðum sem hafa orðið eða eru yfirvofandi, sem ætla má að hafi áhrif á þjóðaröryggi. Þá hafa verið lögð drög að opnu málþingi um þjóðaröryggismál síðar á árinu í tengslum við fullveldisafmælið og gert er ráð fyrir að haldið verði málþing í upphafi næsta árs um fjölþáttaógnir (e.hybrid threats).  Sérstök umræðuefni á fundinum voru núverandi hernaðarlegt ógnarmat á Norðurlöndum í heild og hugsanleg áhrif þess á stöðu og ógnarmat Íslands. Jafnframt var fjallað um stöðu Íslands í alþjóðasamstarfi um landamæraeftirlit eftir úttektarskýrslu Schengen.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila