Hryðjuverkaárás í Barcelona

Að minnsta kosti þrettán eru látnir eftir að sendibifreið var ekið á mikilli ferð á hóp fólks á Römblunni í miðborg Barcelona í dag. Fjölmargir eru að auki særðir en vitni segjast hafa séð bílstjóra sendibifreiðarinnar flýja af vettvangi á hlaupum. Þá hafa óljósar fregnir borist af því að fólki sé haldið í gíslingu af vopnuðum manni á Tyrkneskum veitingastað nálægt þeim stað sem hryðjuverkið var framið. Almenningur hefur verið hvattur til þess að halda sig frá fjölförnum stöðum í miðborginni á meðan lögregla nær utan um það ástand sem hefur skapast en þegar hefur nærliggjandi svæðum verið lokað. Mjög margir ferðamenn eru á svæðinu en ekki hafa verið gefnar upplýsingar um hverra þjóða fórnarlömb árásarinnar eru.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila