Hryðjuverkaárás í Stokkhólmi

Þrír menn óku flutningabíl inn í mannþröng á Drottningargötunni í Stokkhólmi í Svíþjóð fyrir stundu og hófu svo skothríð á vegfarendur. Arnþrúður Karlsdóttir og Pétur Gunnlaugsson ræddu við Baldur Bjarnason sem búið hefur í Gautaborg í áratugi í beinni útsendingu fyrir stundu en þar lýsti Baldur því að mennirnir hafi ekið inn í mannþröngina og þaðan inn í stórmarkað þar sem þeir stukku úr bílnum og skutu á vegfarendur. Baldur segir að íbúar í Stokkhólmi hafi fengið þær skipanir frá lögreglu að halda sig heima á meðan verið er að ná tökum á ástandinu. Þá var þeim sem voru í miðborg Stokkhólms sagt að yfirgefa miðborgina. Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir um málið stálu mennirnir bílnum skammt frá árásarstaðnum þar sem verið var að afferma bílinn. Staðfest er að minnsta kosti þrír hafi látist í árásinni og eru tugir manna særðir. Ekki liggja nánari upplýsingar fyrir að svo stöddu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila