Íslenska ríkið óskar eftir endurskoðun yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnar í dag þá ákvörðun sína um að íslenska ríkið myndi óska eftir endurskoðun yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu á dómi MDE í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn Íslandi sem féll þann 12. mars síðastliðinn Í málinu komst meirihluti dómsins að þeirri niðurstöðu að annmarkar á meðferð ráðherra og Alþingis við skipun eins dómara við Landsrétt fælu í sér brot gegn mannréttindasáttmála Evrópu um að skipan dómstólsins sé ákveðin með lögum.

Þórdís Kolbrún segir brýnt að fá álit yfirdeildarinnar enda séu ríkir hagsmunir í húfi: „Við höfum síðustu vikur skoðað mismunandi fleti þessa mikilvæga máls. Eftir þá skoðun tel ég rétt að óska endurskoðunar hjá yfirdeild Mannréttindadómstólsins. Ég tel brýnt að fara þessa leið í ljósi þess hve mikilvæga hagsmuni málið snertir hér á landi. Ég mun halda áfram að skoða aðra fleti málsins en á þessu stigi verða ekki teknar frekari ákvarðanir.”

Í tilkynningu frá Dómsmálaráðuneytinu segir að taki yfirdeildin málið til endurskoðunar verði óskað eftir því að málið njóti forgangs en MDE hefur frá upphafi skilgreint málið mikilvægt og hlaut það flýtimeðferð á fyrri stigum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila