Ítrekar mikilvægi tillitsemi við EFTA ríki vegna Brexit

Guðlaugur Þór Þórðarson sem sótti fund EES – ráðsins fyrir Íslands hönd í vikunni gerði Brexit að umtalsefni á fundinum og ítrekaði meðal annars mikilvægi þess að tekið yrði tillit til EFTA ríkjanna í Brexitviðræðum ESB og breta.Framtíðarskipan samvinnu milli Bretlands, ESB og EFTA-ríkjanna innan EES var einnig rædd og sagði Guðlaugur Þór að leggja yrði áherslu á að leita lausna. „Mikilvægast er að hafa í huga að nýjar viðskiptahömlur koma engum til góða“, segir utanríkisráðherra.
Þá var einnig rætt um hvernig framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið gangi. Í ár eru 25 ár síðan samningurinn var undirritaður og kom fram í máli utanríkisráðherra að grundvöllur EES-samstarfsins hafi haldist óbreyttur og að samningurinn væri einn af lykilþáttum íslenskrar utanríkisstefnu. Farsællega hefði tekist að aðlaga EES-samstarfið að breyttum aðstæður og leysa úr þeim áskorunum sem mætt hafi samningsaðilum sl. aldarfjórðung. Meðal annarra mála sem rædd voru á EES-ráðsfundinum var „gagnahagkerfið“ (e. data economy) en talið er lykilatriði fyrir efnahagslíf á EES-svæðinu að ryðja hindrunum á frjálsum gagnaflutningum milli landa úr vegi, samtímis því að persónuvernd sé tryggð.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila