Jafna þarf launamun milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins

Nauðsynlegt er að vinna að því að jafna þann launamun sem nú ríkir á milli hins almenna vinnumarkaðar og opinbera vinnumarkaðarins. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu starfshóps um gögn og aðferðir til grundvallar jöfnun launa milli markaða. Jafnfram kemur fram að bæta þurfi gagnasöfnun í þeim tilgangi að fá betri heildaryfirsýn, sem síðar leiði til betri jöfnuðar milli vinnumarkaða. Hópurinn var stofnaður til að undirbúa vinnu í tengslum við samkomulag BHM, BSRB, KÍ, ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 2016 um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna, en í samkomulaginu er fjallað um jöfnun launa. Þar segir m.a. að huga þurfi sérstaklega að því að jafna laun einstakra hópa milli almenns og opinbers vinnumarkaðar. Samráðshópnum var m.a. falið að kortleggja launagögn, launamyndunarkerfi, launahugtök o.fl. sem máli skiptir við launasamanburð og kynna sér tilhögun þessara mála í nágrannalöndum okkar. Meginniðurstaða hópsins er að á Íslandi þurfi að taka upp samræmda gagnasöfnun að norskri fyrirmynd.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila