Kolefnisjafnaðri ferð íslenska landsliðsins til Rússlands fagnað á Bessastöðum

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson tekur í dag kl. 15:00 á móti fulltrúum Votlendissjóðsins, Knattspyrnusambands Íslands og Garðabæjar á Bessastöðum í tilefni af því að KSÍ hefur gefið fé til Votlendissjóðsins til að kolefnisjafna ferð landsliðsins til Rússlands. Fram kemur í tilkynningu frá forsetaembættinu að framlagið verði nýtt til endurheimtar votlendis í landi Bessastaða. Af því tilefni munu forseti og gestir hans hefja verkið og taka nokkrar táknrænar skóflustungur við fráveituskurð sem ætlunin er að loka í sumar. Meðal þeirra sem taka þátt í athöfninni eru auk forseta Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðni Bergsson, forseti KSÍ, þau Aron Einar Gunnarsson og Sara Björk Gunnarsdóttir fyrirliðar landsliða Íslands í knattspyrnu, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, og Ásbjörn Björgvinsson, framkvæmdastjóri Votlendissjóðsins.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila