Krefjast frjálsra strandveiða tafarlaust

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að SFÚ taki undir kröfur Landssambands smábátaeigenda um frjálsar strandveiðar í ágúst . Í yfirlýsingunni segir meðal annars “ Mikilvægt er að ráðherra hafi hagsmuni fleiri aðila en stórútgerðarinnar og lóðrétt samþættra fyrirtækja í greininni í fyrirrúmi. Nauðsynlegt er að bregðast við strax og tryggja samfelldar strandveiðar allan ágúst. Það verður einungis gert með því að hækka aflaviðmiðun til strandveiða í ágúst. Slík hækkun getur með engu móti ógnað stofnstærð eða viðhaldi stofna á Íslandsmiðum, ekki síst með hliðsjón af því að ráðherra hefur þegar hliðrað 30 prósent ársúthlutunarinnar yfir á næsta fiskveiðiár.“.

Ráðherra grípi til aðgerða strax

Þá segir að í ljósi þess að strandveiðiaflinn sem hlutfall af þorskveiðikvóta hafi dregist verulega saman frá árinu 2012 beri ráðherra að grípa inn í tafarlaust “ Þannig getur ráðherra tryggt betri dreifingu fiskveiða yfir fiskveiðiárið en annars verður. Varla er það í þágu samkeppni og fjölbreytni í íslenskum sjávarútvegi að hygla örfáum risum í greininni á kostnað sjálfstæðra aðila sem fram til þessa hafa staðið í öndvegi vöruþróunar og sóknar inn á nýja og verðmæta útflutningsmarkaði fyrir íslenskar sjávarafurðir.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila