Kynferðisofbeldi ógn við lýðræðið

Kynferðisofbeldi er bein ógn við lýðræðið og ofbeldismenn munu ekki lengur komast upp með áreitni eða niðrandi brandara um konur. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ályktun Kvenréttindafélags Íslands sem send var fjölmiðlum í morgun í tilefni af áskorun stjórnmálakvenna vegna kynferðisofbeldis og áreitni. Þá segir í ályktuninni að félagið líti með þakklæti til þeirra kvenna sem börðust fyrir réttindum kvenna á árum áður “  Við lítum með þakklæti til súffragettanna sem börðust fyrir kosningarétti kvenna um aldamót síðustu aldar, til kvennanna sem örkuðu niður Laugaveginn á rauðum sokkum á áttunda áratugnum, til kvennanna sem ákváðu að nú væri nóg komið og stofnuðu sinn eiginn stjórnmálaflokk og gjörbreyttu íslenskum stjórnmálum. Nú á byltingin sér stað á nýjum vettvangi: á veraldarvefnum, undir myllumerkjum eins og  #metoo, #églíka, #konurtala, #höfumhátt,  #freethenipple og #ískuggavaldsins„.

Standa með konum sem stíga fram

Í tilkynningunni segir enn fremur að félagið muni standa með öllum þeim konum sem stíga fram og greina frá reynslu sinni “ Kvenréttindafélag Íslands stendur með öllum konum sem stíga fram og draga frá tjöldin, varpa ljósi á ofbeldi og kynferðislega áreitni sem meðal annars valdamenn þessa lands stunda. Við lítum með aðdáun til þeirra kvenna sem nú hafa tekið upp gunnfána kvenfrelsis og kvenréttinda og afhjúpað það landlæga ofbeldi og áreiti sem konur á Íslandi hafa þurft og þurfa að sætta sig við á opinberum vettvangi. Nú verður ekki aftur snúið. Ofbeldismenn komast ekki lengur upp með að káfa, þukla, króa af, þrýsta að sér brjóstum, segja niðrandi brandara eða hvaða aðferð sem þeir nota.  Við stöndum saman gegn kynferðislegu ofbeldi og áreitni. Byltum samfélaginu, saman„.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila