Læknafélag Íslands segir úrskurð ráðuneytis í kvörtunarmáli taugalæknis bitna á sjúklingum

Læknafélag Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem niðurstaða Heilbrigðisráðuneytisins í kvörtunarmáli taugalæknis vegna synjunar á aðild nýrra sérfræðilækna að rammasamningi sjúkratrygginga Íslands er harðlega gagnrýnd. Í yfirlýsingunni segir meðal annars „Nú hefur 17 læknum í 13 sérgreinum verið meinuð aðild að rammasamningi SÍ og LR. Í að minnsta kosti 9 þessara sérgreina er mikill skortur á sérfræðilæknum og löng bið fyrir sjúklinga. Hér er því alls ekki um einangrað mál að ræða sem varðar eina sérgrein eða einn sjúklingahóp. Við þær aðstæður sem ráðuneytið hefur nú skapað með gjörðum sínum neyðast þeir sérfræðilæknar, sem ekki fá aðgang að rammasamningnum, til að hefja sjúklingamóttöku. Sjúklingarnir greiða þá allan kostnað og láta síðan reyna á sjúkratryggingu sína og hugsanlegar endurgreiðslur frá SÍ. Til verður tvöfalt heilbrigðiskerfi þar sem sjúklingum er gert að bíða, stundum svo mánuðum skiptir, eftir tíma hjá sérfræðilækni með aðild að samningnum, eða greiða hærra verð án þátttöku ríkisins til að komast tímanlega að hjá lækni án aðildar að samningnum. Læknafélag Reykjavíkur varar við þessari óheillaþróun og spyr hvers vegna verið sé að draga saman þjónustu hins opinbera utan sjúkrastofnana. Með því að takmarka eða hætta greiðsluþátttöku ríkisins í þeim lækniskostnaði skapast tvöfalt heilbrigðiskerfi og þörf landsmanna fyrir að kaupa sér sjúkratryggingu hjá einkatryggingarfélögum eykst„.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila