Lagt til að hjúkrunarfræðingar hafi viðveru á leikskólum

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem fyrir skömmu lagði til þá róttæku tillögu að setja bólusetningu sem inntökuskilyrði inn á leikskóla borgarinnar hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún segist hafa unnið að vægari tillögu til að verja heilsu leikskólabarna. Í yfirlýsingunni kemur fram að tillagan miði að viðveru hjúkrunarfræðings líkt og gert sé í grunnskólum borgarinnar. Í yfirlýsingunni segir “ Frá því meirihluti borgarstjórnar felldi tillögu mína um að gera almennar bólusetningar að inntökuskilyrði á leikskólum borgarinnar hef ég unnið að mildari útfærslu – útfærslu sem þó gæti náð því markmiði að auka þátttöku í almennum bólusetningum. Ég hef nú lagt til að borgin leiti samstarfs við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um aukna þátttöku barna í almennum bólusetningum. Þannig verði tryggð viðvera hjúkrunarfræðings í leikskólum borgarinnar með sambærilegum hætti og tíðkast í grunnskólum landsins. Hjúkrunarfræðingi leikskólanna yrði falið að framkvæma almennar bólusetningar leikskólabarna, að höfðu samráði og gefnu samþykki foreldra. Eins yrði kannað hvort fela mætti hjúkrunarfræðingi þroskamat og þroskaskimun inni á leikskólunum enda má ætla að skólarnir séu æskilegra og afslappaðra umhverfi fyrir slíka skimun. Sóttvarnarlæknir hefur tekið undir þessi sjónarmið og mælst til þess að borgin leiti eftir slíku samstarfi. Það er sérstaklega ánægjulegt og vekur von um samþykki tillögunnar„.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila