Landlæknir telur bólusetningum barna ábótavant

Þátttaka barna við 12 mánaða aldur og fjögurra ára aldur í almennum bólusetningum var töluvert lakari árið 2016 en árið á undan samkvæmt nýrri skýrslu sóttvarnalæknis. Minnki þátttakan enn frekar telur hann líkur á að hér geri vart við sig sjúkdómar sem ekki hafa sést um árabil.
Skýrsla sóttvarnalæknis hefur verið birt á vef Embættis landlæknis. Í tilkynningu sóttvarnalæknis kemur fram að þátttaka í almennum bólusetningum árið 2016 hafi verið svipuð og árið á undan, nema hjá börnum við 12 mánaða og 4 ára aldur þar sem hún var töluvert lakari á árinu 2016.
Í tilkynningunni segir að ástæður fyrir minni þátttöku séu ekki ljósar en taldar mestar líkur á því að innköllunarkerfi heilsugæslunnar sé ófullnægjandi fyrir börn á þessum aldri. Þá hafi komið í ljós töluverður munur á þátttökunni milli landsvæða.
Ef þátttaka minnkar enn frekar má búast við að hér á landi fari að sjást sjúkdómar sem ekki hafa sést um árabil“ segir í tilkynningunni þar sem kemur fram að sóttvarnalæknir muni á næstunni kalla til ýmsa aðila til að leita leiða við að ná þátttökunni í viðundandi horf.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila