Leggur til að álögur verði lækkaðar á heimilin í borginni

Eyþór Arnalds oddviti og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Eyþór Arnalds oddviti og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins ætlar í dag þegar fyrri umræður um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fara fram, að leggja fram tillögur þess efnis að álögur á heimilin í borginni verði lækkaðar. Í tillögum hans er meðal annars gert ráð fyrir að lækka útsvar auk þess sem fasteignaskattar verði lækkaðir hjá öldruðum og öryrkjum. Í tilkynningu frá Eyþóri segir meðal annars „Við munum leggja til lækkun útsvars og viðbótarafslátt af fasteignasköttum eldri borgara og öryrkja. Auk þess munum við leggja til lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði enda mun lækkun á þeim skatti minnka hættu á verðhækkunum á þjónustu og húsaleigu svo dæmi séu tekin„.

Tillögurnar verði framlag borgarinnar í komandi kjaraviðræðum

Hann segir að tillögurnar ættu að verða framlag borgarinnar í komandi kjaraviðræðum og að Reykjavíkurborg geti einfaldlega ekki skorast undan ábyrgð sinni í að bæta kjör borgarbúa „ Útsvarslækkun á að vera framlag Reykjavíkurborgar í komandi kjaraviðræðum. Launafólk á mikið undir því að skattar lækki nú í stað þess að höfrungahlaupið fari af stað með verðbólgu. Borgin á að leggja áherslu á að bæta kaupmátt Reykvíkinga með ábyrgum hætti og hætta að taka meira en nágrannasveitarfélögin af launum fólksins í borginni,“ segir Eyþór Arnalds í tilkynningunni.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila