Leiðtogar vilja efla samskipti vegna alþjóðlegra öryggismála

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sótti leiðtogafund Norðurlanda og Indlands í Stokkhólmi sem fram fór í gær. Þátttakendur á fundinum voru forsætisráðherrar allra Norðurlandanna og Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands. Þá átti Katrín einnig tvíhliða fund með Narendra Modi.
Katrín og Narendra Modi ræddu á fundi sínum um almenn samskipti landanna, viðskipti og samstarf á sviði rannsókna og menntunar. Modi tók sérstaklega upp möguleika á auknu samstarfi á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, og þá einkum jarðvarma. Þá ræddu þau bláa hagkerfið og möguleika á nýsköpun í sjávarútvegi.
Meðal umræðuefna á fundi norrænu forsætisráðherranna með Modi voru viðskiptasambönd ríkjanna, tækniframfarir og nýsköpun, alþjóðleg öryggismál og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna á sviði umhverfis og jafnréttis.
Katrín sagði að loknum fundi að Norðurlöndin eigi mikil tækifæri í því að skipuleggja sameiginlega fundi með stærri ríkjum. „Ljóst er að Norðurlöndin eiga mikil tækifæri í aukinni samvinnu við Indland, ekki síst á sviði nýsköpunar og umhverfismála. Þá var ánægjulegt að rík áhersla var á jafnréttismál á fundinum.“
Í sameiginlegri fréttatilkynningu af fundi leiðtoganna kemur m.a. fram að forsætisráðherrar Norðurlandanna og Indlands hyggist styrkja og efla samskiptin einkum varðandi alþjóðleg öryggismál, hagvöxt, nýsköpun og loftslagsbreytingar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila