Leit hafin að nýju að manni sem féll í Gullfoss

Björgunarsveitir hafa að nýju hafið leit að manni sem féll í Gullfoss síðdegis í gær. Lögregla telur sig fljótlega geta staðfest hver maðurinn er en ekki er talið að um erlendan ferðamann sé að ræða. Bifreið sem fannst yfirgefin á plani við fossinn var rannsökuð í gær og er talið að maðurinn hafi komið á þeirri bifreið. Um 145 björgunarsveitarmenn voru við leit í gær við erfiðar aðstæður auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar tók þátt í leitinni. Þá voru bátar notaðir við leitina og kafarar könnuðu svæðið neðan við fossinn en leitin beinist fyrst og fremst að því svæði. Leit var svo frestað seint í gærkvöld.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila